fbpx Menningarferð til Mexíkó | Vita

Menningarferð til Mexíkó

Á slóðir frumbyggja og Fridu Kahlo

Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið

Myndagallerí

Mexíkó

Dagsetning: 2 júní – 18 júní 2025.
Fararstjóri: Stefán Á. Guðmundsson
Hámarksfjöldi í ferðina eru 25 manns


istock-961987494.jpg

Komdu með í stórkostlega menningarferð til Mexíkó. Litir og líflegir markaðir, tacos og tequila, borgarstemning og náttúrufegurð, skemmtileg blanda af frumbyggjahefðum og nútímáherslum – allt er þetta að finna í þessu merkilega og leyndardómsfulla landi. Sagan og fjölbreytt matarmenning, dulúð og tónlist, gleði og sorg – allt hefur þetta sveipað líf og mótað karakter heimamanna.

Í Mexíkó er að finna gríðalega mikið af frumbyggjaminjum sem margar hverjar verða heimsóttar í þessari ferð. Aztekar og menning Teotihuacan eru alls ráðandi á hásléttunni þar sem Mexíkóborg stendur. Zapótekar með Monté Albán eru ríkjandi í Oaxaca-fylkinu og minjar Maya ráða ríkjum á Yucatanskaganum með stórkostlegar hallir í Palenque og pýramída í Chitzén Itzá. Mexíkó er líka land lita og listamanna. Fremst meðal jafningja á síðustu öld er listmálarinn Frida Kahlo. Við heimsækjum Bláa húsið hennar sem var breytt í safn og er að finna í Coyocan-hverfinu í Mexíkóborg. Ekki má gleyma eiginmanni hennar, listamanninum Diego Rivera og verkum hans og félaga í veggmyndahreyfingunni sem við munum einnig skoða í höfuðborginni.

Ferðin byrjar í Mexíkóborg og verður dvalið þar í 5 nætur. Mikið er að sjá og upplifa í þessari stórborg og nágrenni hennar og verða ma.a heimkynni Fridu og verk Diego skoðuð ásamt öðrum söfnum á borð við hið stórbrotna Mannfræðisafn og rústir Azteka pýramída í gamla bæjarhlutanum. Á sjötta degi verður keyrt suður til Oaxaca með viðkomu í Cholula. Í Oaxacaborg, þar sem gist er í 2 nætur, er að finna fallegan nýlenduborgarkjarna og þar verða Zapótekum gerð góð skil. Svo er haldið áfram suður til Tehuantepec með viðkomu á athyglisverðum stöðum sem þekktir eru fyrir ýmiskonar handverk og mezcalframleiðslu. Eftir nótt í Tehuantepec er svo haldið áfram til fylkisins Chiapas sem liggur að landamærum Guatemala. Hér erum við komin í mikla nánd við Tzotzil og Tzeltal frumbyggjaþjóðirnar. Við förum í bátsferð í Sumidero-glúfrinu og svo áfram til San Cristóbal de Las Casas í 2 nætur. Í Las Casas skoðum við forvitnislega staði og fáum innsýn í fortíðina og heim frumbyggja. Áfram er svo haldið og næsti áfangastaður er Palenque í eina nótt. Í Palenque, við jaðra regnskógarins Péten, er að finna eina af fallegustu minjum Mayanna. Eftir Palenque verður keyrt áfram til Campeche við Mexíkóflóa þar sem gist er í 1 nótt. Frá Campeche er svo haldið til Mérida með viðkomu í Uxmal sem er ekki eins þekkt og aðrar Maya-minjar en engu að síður stórmerkilegar. Að lokum er keyrt frá Mérida til Maya-rústanna í Chitzén Itzá, líklega þær þekktustu á Yucatánskaganum. Þaðan er svo ekið til Cancún í 2 nætur, í afslöppun við hvítar strendur og ylvolgan sjó.

Flugáætlun: 

Flugnúmer Dagsetning Flugvöllur Brottför Flugvöllur Lending
FI 603 2.júní Keflavík 17:05 Toronto 19:10
WS 2580 3.júní Toronto 08:55 Cancún 12:10
AM543 3.júní Cancún 16:16 Mexikóborg 18:00
WS 2425 18.júní Cancún 13:05 Toronto 18:11
FI 604 18.júní Toronto 23:00 Keflavík 08:40 + 1

mexiko_kort.jpg

Leiðarlýsing.

Mánudagur 2 júní.

Lagt af stað með Icelandair kl.17:05 frá Keflavík til Toronto og lent um kl. 19:10. Gist á hóteli í Toronto fyrstu nóttina, morgunverður innifalinn.

 

Þriðjudagur 3 júní.

Flogið frá Toronto til Cancún. Þar er skipt um vél og flogið áfram til Mexíkóborgar og lent kl. 18:00. Ekið frá flugvellinum á hótel í Mexíkóborg
Innifalið: Akstur til flugvallar í Toronto. Flug frá Toronto til Cancún og Cancún til Mexíkóborg.  Akstur frá flugvelli á hótel í Mexíkóborg og sameiginlegur kvöldverður.
Gisting og morgunverður í Mexíkóborg: 5 nætur á góðu 4*hóteli - Galeria Plaza Reforma í Zona Rosa hverfinu þar sem mikið er af veitingastöðum, kaffihúsum og börum.


mexiko_el_zocalo.jpg

Miðvikudagur 4 júní. - El Zócalo – Hjarta Mexíkóborgar.

Skoðunarferð um helstu kennileiti miðborgar Mexíkó. Við byrjum fyrir framan forsetahöllina á stjórnarráðstorginu sem jafnan er kallað „El Zócalo“ af heimamönnum. Torgið er staðsett ofan á Tenochtitlán, gömlu Aztekaborginni sem Spánverjar réðust á í upphafi 16. aldar. Við skoðum Templo Mayor safnið sem sýnir hluta af þessum frumbyggjaminjum Azteka. Höldum svo yfir í dómkirkjuna við norðurhluta torgsins og þá áfram yfir í San Ildefonso stofnunina til að sjá eina af glæsilegustu nýlendubyggingum borgarinnar og dramatískar veggmyndir af Mexíkönsku byltingunni eftir José C. Orozco. Eftir léttan hádegisverð í miðborginni skoðum við eina af stórkostlegu veggmyndum listamannsins Diego Rivera. Verkið, Eftirmiðdags Sunnudagsdraumur í Alameda Garðinum, er eitt hans þekktasta og sýnir hundruði persóna úr sögu Mexíkó í göngutúr í Alameda-garðinum. Veggmyndinni var bjargað úr hóteli í miðbænum sem skemmdist mikið í jarðskjálftanum mikla 1985. Í eftirmiðdaginn heimsækjum við hið stórglæsilega Mannfræðisafn í Chapultepec almenningsgarðinum. Þar er hægt að fá góða yfirsýn yfir alla helstu þjóðflokka Mexíkó fyrir komu Spánverja og helstu fornminjastaði landsins, marga hverja sem við munum heimsækja. Sameiginlegur kvöldverður.
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður. Aðgangur að öllum söfnum.


mexiko_teotihuacan_og_maerin_fra_guadalupe.jpg

Fimmtudagur 5 júní - Teotihuacan og Mærin frá Guadalupe.

Stefnan er tekið norður fyrir borgina á einn stærsta fornleifastað Mexíkó, Teotihuacan. Þessi borg guða var í blóma fyrir tíma Azteka og hefur að geyma himinháa pýramída kennda við sól og mána og glæsileg hof sem eru tengd við aðalgötu borgarinnar, „Gata hinna dauðu“. Í kringum 500 e.Kr. hafa á milli 100-200 þúsund manns átt heima í Teotihuacan og hefur hún að öllum líkindum verið fjölmennasta borg Nýja heimsins þá. Hádegisverður verður í nágrenni við Teotihuacan. Á leiðinni til baka er komið við á einum helgasta stað þessa kaþólska lands, í Basiliku Mærinnar frá Guadalupe. Á þessum stað birtist Mærin frumbyggjanum Juan Diego í upphafi 16. aldar og gaf þar með tóninn fyrir kristnitöku landsins. Mærin verður svo í framhaldi verndardýrlingur Mexíkó og á eftir að fylgja okkur á þessu ferðalagi.
Innifalið: Morgun- og hádegisverður. Aðgangur að minjum og kirkju.


mexiko_frida_khalo_museum.jpg

Föstudagur 6 júní - Dagur Fridu Kahlo.

Dagurinn verður tileinkaður listmálaranum og kvenskörungnum Fridu Kahlo. Við keyrum til suðurhluta Mexíkóborgar í hverfið Coyoacán og eyðum megnið af deginum þar. Byrjum á að heimsækja Bláa Húsið, heimili Fridu sem hefur verið breytt í safn. Mikið af munum frá henni og Diego Rivera, eiginmanni hennar, er að finna þar og spennandi er að komast nær persónu Fridu og tíðaranda hennar tíma. Að lokinni heimsókn í Bláa Húsið er komið við á León Trotsky safninu, en fyrir tilstuðlan Diego og Fridu fékk byltingarleiðtoginn rússneski pólítiskt hæli í Mexíkó en var svo drepinn á heimili sínu af útsendara Stalíns. Hjarta Coyoacan er hið litríka og fallega Plaza Hidalgo og þangað liggur leið okkar í hádegisverð með stuttri viðkomu á litríkum markaði, Mercado de Coyoacan. Eftir hádegisverð verður gefin frjáls tími til að rölta um torgið og skoða sig um áður en haldið er til nágrannhverfisins San Angel á vinnustofu Diego Rivera. Þar lét listmálarinn byggja tvö hús, annað fyrir sig og hitt fyrir Fridu.
Innifalið: Morgun- og hádegisverður. Aðgangur að öllum söfnum.


mexiko_songvarar.jpg

Laugardagur 7 júní - Frjáls dagur í Mexíkóborg.

Frjáls dagur í höfuðborginni. Fararstjóri mun gefa góð ráð um hvað hægt er að gera sé þess óskað.


mexiko_oxaca.jpg

 

Sunnudagur 8 júní - Frá Mexíkóborg til Cholula og áfram til Oaxaca.

Við kveðjum Mexíkóborg og höldum suður til Oaxaca með stoppi í bænum Cholula, rétt suður af borginni Puebla. Í Cholula er að finna eina skýrustu birtingarmynd landvinninga Spánverja í Nýja heiminum en ofaná risa pýramída Cholula reistu Spánverjar kaþólska kirkju, svona til að minna heimamenn á hverjir væru hinir nýju herrar. Ef viðrar vel til veðurs er glæsilegt útsýni þaðan á eldfjallið, Popocatépetl. Í Cholula borðum við hádegisverð en fylkið Puebla er þekkt fyrir rétti á borð við Mole Poblano. Mole-sósan er til í ýmsum útgáfum í Mexíkó en súkkulaði og síbreytilegar blöndur af chile einkenna þessa sósu sem oftast er framreidd með kjúkling eða kalkúnakjöti og meðlæti. Eftir máltíð er áfram ekið suður til Oaxaca. Sameiginlegur kvöldverður í Oaxaca. 
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður. Aðgangur að fornminjum og kirkju. Gisting og morgunverður: 2 nætur - Hotel Quinta Real Oaxaca. Mjög gott hótel í gömlu klaustri og frábærlega staðsett í gamla bæjarhluta Oaxaca.


mexiko_dansarar.jpg

Mánudagur 9 júní - Borgin Oaxaca.

Velkomin til Oaxaca. Gamli borgarhlutinn er af mörgum talin einn sá fallegasti og mest heillandi í Mexíkó. Byggingar í skærum litum, líflegir markaðir, fjölbreytt matarmenning – allt þetta er að finna í Oaxaca. Um morguninn heimsækjum við Monte Albán, fornminjar Zapótecafrumbyggja sem eru að finna upp á hæð rétt við borgina. Minjum þessum er vel við haldið og þykja sérstaklega hrífandi vegna staðsetningar sinnar en glæsilegt útsýni er þar yfir dalina í kring.  Þegar komið er aftur til baka verður stutt stopp í súkkulaðismakk áður en fólki verður gefin frjáls eftirmiðdagur í borginni til að njóta þess sem hún hefur uppá að bjóða.
Innifalið: Morgunverður og aðgangur að fornminjum.


mexiko_taco.jpg

Þriðjudagur 10 júní - Handverk og mezcal smökkun í dölum Oaxaca.

Við keyrum suð-austur í átt að Kyrrahafsströndinni í dag á næturstað í Tehuantepec og munum heimsækja ýmsa forvitnilega staði á leiðinni. Við kíkjum á handverkstað þar sem heimamenn búa til „alebrijes“, einskonar blanda af goðsagnarlegum og ímynduðum dýra-fígúrum sem einkenna markaði Oaxaca. Einnig sjáum við ýmiskonar handverk og textílvinnslu í þorpinu Teotitlán del Valle sem sérhæfir sig í gömlum aðferðum Zapótekafrumbyggja. Stoppum stutt við hið svera sýprustré í Tule og í mezcal smökkun í Santiago Matatlán áður en við höldum áfram til fornminjar í Mitla. Þessi staður er töluvert minni en Monte Albán en engu að síður þekktur fyrir geometrísk form sem þar eru að finna. Á ferð okkar um dali Oaxaca verður boðið uppá hádegisverð og þegar komið er til Tehuantepec er sameiginlegur kvöldverður.
Innifalið:  Morgun-, hádegis- og kvöldverður. Aðgangur að handverkstöðum, mezcal smökkun og fornminjum. Gisting með morgunverði: 1 nótt – City Express by Marrriot Salina Cruz. Snyrtilegt 4* stjörnu hótel í Tehuantepec.


mexiko-macros.jpg

Miðvikudagur 11 júní - Chiapas.

Eftir morgunverð á hóteli er stefnan tekin beint í austur til fylkisins Chiapas sem liggur að landamærum Guatemala. Við erum að nálgast frumbyggjaland Maya. Eftir morgunkeyrslu förum við í bátsferð í Sumidero-gljúfrinu norður af borginni Tuxtla Gutiérrez. Áin Río Grijalva rennur 25km í gegnum gljúfrið þar sem háir hamrar og fjölbreytt náttúrulíf bjóða gesti velkomna. Sameiginlegur hádegisverður. Svo er haldið áfram til borgarinnar San Cristóbal de las Casas sem er staðsett í fjallendi fylkisins í yfir 2000 metra hæð. Þar gistum við í tvær nætur. Borgin komst í fréttirnar 1 janúar 1994 þegar frumbyggjar í Zapatista-skæruliðahreyfingunni gerðu uppreisn gegn Mexíkóskum yfirvöldum og tóku borgina á sitt vald í nokkra daga. Hreyfingin vildi vekja athygli á bágum aðstæðum og fáum tækifærum frumbyggja í fylkinu. Í kjölfar af uppreisn var San Andrés friðarsamningurinn undirritaður af báðum aðilum. Hinn grímuklæddi Marcos sem enn fer fyrir hernaðararmi hreyfingarinnar minnir þó á sig endrum eins í gegnum netskrif sín og pistla í fjölmiðlum í Mexíkó, en heldur sig í dag langt inn í Petén frumskóginum við landamæri Guatemala.
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður. Aðgangur í bátsferð. Gisting og morgunverður: 2 nætur - Hótel Sombra del Agua. Skemmtilegt og sjarmerandi hótel í nýlendustíl á mjög góðum stað í miðborg San Cristóbal de las Casas.


mexiko_maiz.jpg

Fimmtudagur 12 júní - San Cristóbal de las Casas og nágrenni.

Fyrir hádegi keyrum við út fyrir borgina og heimsækjum þorpin San Juan Chamula og Zinacantán. Í báðum þessum þorpum búa Tzotzil frumbyggjar sem halda fast í gamla siði og ákveðið sjálfræði. Trúarathafnir þeirra í kirkjunni í San Juan Chamula bera vitni um það en einstök blanda af heiðnum siðum frumbyggja og kaþólski trú er þar enn að finna. Stranglega bannað er að taka myndir í San Juan Chamula. Við látum núvitund ráða för þar. Hádegisverður í boði þegar komið er til baka til Las Casas. Eftir máltið heimsækjum við dómkirkjuna á aðaltorgi borgarinnar og tökum hús á Sna Jolobil stofnuninni. Þessi merkilega stofnun varð til um 1970 og leggur áherslu á að varðveita aldagamla vefnaðarvinnu og hönnun margra frumbyggjakvenna í fjallendi Chiapas. Í Sna Jolobil er hægt að kaupa ýmiskonar vörur beint frá þorpum þessara kvenna og þannig styðja beint við framleiðslu og atvinnuveg í héraði. Við ljúkum deginum í Casa Na Bolom sem tileinkar sér rannsóknir og verndun á Lacandón frumskógasvæðinu í Chiapas og frumbyggjum þess. Rannsóknarsetrið er á fyrrum heimili danska fornleifafræðingsins Frans Blom og konu hans, svissneska ljósmyndaranum Gertrude Duby-Blom. Hjónin eyddu töluverðum tíma um miðja 20 öld í að safna upplýsingum um Lacandón-svæðið og skrásetja. Afraksturinn er hægt að sjá á rannsóknarsetrinu.
Innifalið: Morgun- og hádegisverður. Aðgangur að kirkjum, handverksstöðum og Na Bolom.


mexiko-villahermosa.jpg

Föstudagur 13 júní - Frá Las Casas til Villahermosa og áfram til Palenque.

Lagt af stað um morguninn norður, niður á láglendið í átt að hita og raka Villahermosa. Í þessari borg borðum við hádegisverð og heimsækjum skemmtilegt útisafn, Parque Museo La Venta. Þar kynnumst við Olmekum, sem af mörgum er talið elsta menningarsamfélag Mexíkó. Helstu minjar Olmeka eru hinar firnastóru höggvin steinhöfuð sem vega nokkur tonn að þyngd. Nokkur þeirra eru að finna í La Venta garðinum. Eftir dvölina í Villahermosa er haldið áfram austur til Palenque þar sem gist verður í eina nótt. Sameiginlegur kvöldverður.
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður. Aðgangur að La Venta garðinum. Gisting og morgunverður: 1 nótt - Chan-Kah Resort Village Convention Center & Maya Spa. Hér gistum við í smáhýsum í Lacandón-frumskóginum nálægt Palenque og eigum kannski eftir að sjá fjölbreytt fuglalíf og heyra í öskuröpum.  


mexiko_pakal.jpg

Laugardagur 14 júní - Pakal í Palenque.

Við leggjum snemma af stað til fornleifastaðarins Palenque til þess að forðast mesta hitann og rakann. Palenque er tvímælalaust með þeim áhugaverðustu fornleifastöðum sem eru að finna í Mexíkó. Maya-minjarnar standa við regnskóginn með útsýni yfir láglendið og hefur verið gert vel í að hreinsa og endurbyggja svæðið. Umhverfið er stórkostlegt og hið dularfulla yfirbragð þar snemma morguns þegar þokan leggst yfir skóginn á sér enga hliðstæðu. Það er einhver galdur í Palenque. Við skoðum m.a. pýramidann sem konungurinn Pakal er grafinn í (gröfin er þó ekki lengur opin fyrir almenning), höllina með turninum sem talin er hafa verið fyrir stjörnuathuganir og dulin hofin í skóginum. Um hádegisbilið er sameiginlegur hádegisverður og svo er lagt af stað norður til borgarinnar Campeche við Mexíkóflóa og gist þar eina nótt. Sameiginlegur kvöldverður.
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður. Aðgangur að fornminjum. Gisting og morgunverður: 1 nótt – Gamma Campeche Malecón. Hótelið stendur við strandgötu borginnar og mjög nálægt miðbænum.


mexiko_uxmal_og_yucatan-skaginn.jpg

Sunnudagur 15 júní - Uxmal og Yucatán-skaginn.

Eftir morgunverð er keyrt áfram norður Yucatán-skagann til Maya-minjana í Uxmal. Fornleifastaðurinn í Uxmal tilheyrir Puuc-svæðinu, en það er bæði vísun í ákveðinn arkitektúr á þessu Maya-svæði sem og hæðótt landslag þess. Pýramídinn þar er aðallega þekktur fyrir að vera öðruvísi í laginu en aðrir pýramídar. En megin aðdráttaraflið er byggingin sem hefur verið nefnd: Höll Ríkisstjóranna. Neðri hluti byggingar er hefðbundin hleðsla en efri hlutinn er mikið skreyttur með ýmiskonar táknum, m.a. af guðum á borð við Chaac, hinn mikla regnguð. Eftir hádegisverð er keyrt að gististað, að Hacienda-hóteli, rétt norðan við borgina Mérida. Sameiginlegur kvöldverður.
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður. Aðgangur að fornminjum.  Gisting og morgunverður: 1 nótt – Hacienda Xcanatun. Sjarmerandi hótel í nýlendustíl á gamalli Hacienda-landareign sem framleiddi áður m.a. sísilhamp.


mexiko_chitzen_itza.jpg

Mánudagur 16 júní - Chitzén Itzá og Riviera Maya.

Strax um morguninn er ekið austur til Chitzén Itzá. Þessar fornminjar Maya eru líklega einna frægustu á Yucatán-skaganum og mest heimsóttar af ferðamönnum í Mexíkó. Allir hafa séð myndir af pýramídanum Kukulcán og hofinu á toppi þess. En einnig er þarna að finna stórmerkilega byggingu sem talin er hafa verið stjörnuathugunarstöð, stærsta boltavöll í Mexíkó og fjöldann allan af hofum. Við vitum ekki af hverju þessi staður var yfirgefinn á 15. öld en mikið hefur verið lagt í að hreinsa og byggja upp svo ferðamenn geti fengið innsýn inn í heim frumbyggja fyrir komu Spánverja. Eftir Chitzén Itzá snæðum við saman hádegisverð og höldum svo áfram austur til strandarinnar með viðkomu í einum af mörgum Cenotes sem er á leiðinni. Cenotes eru einskonar vatnsbrunnar og hellar í kalksteinsplötu Yucatán-skagans. Við endum svo á hóteli í Riviera Maya svæðinu, suður af Cancún.
Innifalið: Morgun-, hádegis- og kvöldverður. Aðgangur að fornminjum og Cenote. Gisting og morgunverður: 2 nætur - Barceló Maya Palace. Glæsilegt 5* hótel við ströndina Riviera Maya. Matur og drykkir innifalið.


mexiko-playa.jpg

Þriðjudagur 17 júní - Frjáls dagur á Riviera Maya.

Afslöppun. Allur matur og drykkir innifaldir á hóteli.


mexiko_flag.jpg

Miðvikudagur 18 júní - Brottfarardagur.

Ekið á flugvöll í Cancún og flogið til Toronto.  Þaðan er svo verður svo flogið með kvöldvél áfram til Íslands og komið heim snemma morguns fimmtudaginn 19 júní.

 

 

 

Sjá nánari ferðalýsingu
Ferðir
Flug
Báðar leiðir
Aðra leið
  • Hagnýtar upplýsingar

  • Verð og innifalið

Gististaðir

Kort

Sjá alla gististaði
  • Veðrið

  • Flugtími

    Kef YYZ

    5 klst

    Eftirmiðdagsflug

  • Gjaldmiðill

    MXN

    Pesos

    Gengi

Sjá Kortasýn Sjá gististaði

Við notum vefkökur (e.cookies) t.d. til að greina umferð um vefinn og til að bæta upplifun notanda á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú vefkökuskilmála VITA

Nánari upplýsingar um vefkökunotkun